Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Framtíð Íslands

Framtíð Íslands

[18. desember 2008] Félagslegt réttlæti og pólitískt siðgæði eru hlutir sem erfitt er að festa í lög. Þetta eru dyggðir sem blunda í einstaklingnum og liggja í þjóðarsálinni. Það ber vott um virðingarleysi og jafnvel mannvonsku þegar þessar dyggðir eru algjörlega hunsaðar. Embættismenn sváfu á vaktinni í brúnni. Hér hrundi hagkerfið til grunna og enginn sem ber ábyrgð sér ástæðu til þess að segja af sér. Það er greinilega grunnt á pólitísku siðgæði á þessu landi.

Þegar yfirgnæfandi meirihluti fólksins í þessu svokallaða lýðræðislandi krefst kosninga þá bera ráðamenn fyrir sig ótrúlegustu afsökunum. Þeir segja að björgunarstarfið kalli á alla krafta þeirra og kosningabarátta yrði því of tímafrek. Við vitum þó öll að fjöldi alþingismanna hefur í gegnum tíðina verið á launaskrá fyrirtækja og stofnana út um allan bæ á meðan þeir gegna þingstörfum. Fólkið sem skúrar Alþingishúsið ætti að reyna að mæta jafn skrykkjótt á vinnustað!

Stjórnmálamenn eru á háum launum og enn betri eftirlaunum. Hvers vegna segja þeir ekki upp aukastörfunum og mæta til kosninga í vor?

Hvað segir það um okkur sem manneskjur og hvers konar félagslegt réttlæti er það að gera þúsundir einstaklinga sem skulda verðtryggð lán eignalausa á einn svipstundu. Og stela þannig afrakstri margra ára vinnu af þessu fólki? Þetta er gert á sama tíma og varla er hróflað við þeim sem rústuðu öllu kerfinu. Fólkið sem á undanförnum árum hefur verið að kaupa allt of dýrt húsnæði—þökk sé m.a. verðtryggingunni sem stórhækkar allt fasteignaverð—og hefur unnið myrkranna á milli á enga sök á gengisfellingum, okurvaxtastefnu eða spillingu í bankakerfinu. Nú á að leysa efnahagsvandan m.a. með því að leiða þennan hóp í sláturhús.

Líkt og Ugluspegill reiknaði barn í konu þá hafa einhverjir spekingar reiknað það út að verðtrygging lána lækki vaxtabyrðina. Þetta eru mjög villandi útreikningar vegna þess að það er verið að reikna út vexti innan kerfis sem felur í sér verðtryggingu. Aðrar þjóðir búa við kerfi sem byggir á framboði og eftirspurn lána sem bera fasta vexti. Það kerfi hefur alla tíð í nær öllum tilfellum skilað lánþegum lægri vöxtum heldur en íslenska okurkerfið. Verðtryggingin sem kerfi hefur því stórhækkað greiðslubyrðina, ekki lækkað hana. Þetta er útskýrt í smáatriðum hér.

Það er ekki eins og þetta séu einhver geimvísindi. Þegar tveir aðilar semja, en aðeins annar þeirra er látinn axla alla áhættu, þá eru í gangi viðskipti sem eru í hæsta máta óeðlileg og hljóta samkvæmt grundvallarreglum hagfræðinnar að leiða af sér einhverja vitleysu. Helstu gallarnir eru að falin greiðslubyrði fær fólk til þess að bjóða of hátt í húsnæðið og raunvextir verða of háir þegar eðlilegt samband á milli framboðs og eftirspurnar er tekið úr sambandi. Svona vinnubrögð eru ekki í anda eðlilegra viðskiptahefða og geta varla talist lögleg þótt einhverjir pólitíkusar hafi troðið þessu í gegnum þingið. Verðtryggingin var á sínum tíma taktísk viðurkenning stjórnvalda á þeirri staðreynd að þau kunnu ekki að stjórna hagkerfinu ... og kunna það greinilega ekki enn. Íslenska stjórnarskráin er ansi lélegt plagg sem vaskir stjórnmálamenn okkar eru búnir að tala um að breyta í hálfa öld og sennilega væri best að láta Evrópudómstóllinn dæma í þessu máli.

Möppudýrin í lífeyrissjóðunum eru öll á bandi verðtryggingarinnar og segja afnám hennar stórhættulegt fyrir sjóðina. En eins og nýlegt stórtap þessara sjóða sýnir þá eru þetta ekkert sérstaklega sleipir peningamenn eða sjálfstætt hugsandi hagfræðingar. Best væri að leggja þessa sjóði niður og láta kerfið vinna alveg sjálfkrafa. Það er hægt að gera á þennan hátt:

Reikningar eru opnaðir í Seðlabankanum fyrir alla Íslendinga sem eru á vinnumarkaði. Lífeyrissjóðsgreiðslurnar fara sjálfkrafa inn á þessa reikninga í formi ríkisskuldabréfa. Ef einstaklingur deyr um aldur fram þá fá erfingjarnir peningana millifærða á sinn reikning. Það kostar sama og ekki neitt að reka svona kerfi rafrænt, allir fjárfesta í öruggum bréfum og fá síðan greitt til baka að fullu. Berið þetta saman við ruglið sem núna er í gangi.

Lífeyrissjóðirnir eru risaeðlur sem eiga að hverfa.

Framtíð Íslands er ekki björt ef yngsta kynslóð húsnæðiskaupenda verður látin taka á sig stærri skell en aðrir. Réttlát reiði eitrar þá út frá sér í samfélaginu og mikill landsflótti liggur í loftinu. Eru stjórnmálamenn landsins virkilega svo kaldrifjaðir að þeir láti þetta gerast eða eru þeir bara steinrunnin nátttröll sem stara út í tómið. Það verður að afnema verðtrygginguna strax.

 

Tekið af vefsíðunni VALD.ORG
Birt með leyfi höfundar.


Um bloggið

Diesel

Höfundur

Diesel
Diesel
Lúsugur verkamaður sem að ýmsir hafa keppst við að skuldsetja, 4 barna faðir, harðgiftur og kjaftfor.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband